Jafnlaunastefna Ísbúðar Vesturbæjar Jafnlaunastefna Ísbúð Vesturbæjar ehf. (kt.520602-2750) er órjúfanlegur hluti af launastefnu og gildir fyrir alla starfsmenn félagsins. Jafnlaunastefnan skal uppfylla viðeigandi viðmið um jafnlaunastefnur í samræmi við ÍST 85:2012, kafla 4.2. Ísbúð Vesturbæjar fylgir ákvæðum laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki þau réttindi sem koma fram í 6. gr. laganna.
Ísbúð Vesturbæjar greiðir laun sem taka mið af þeim kröfum sem starfið gerir um menntun/þekkingu, hæfni og ábyrgð. Það er stefna félagsins að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara og réttinda fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar hjá félaginu. Um skilgreiningu á launum og kjörum vísast til 9. og 10. mgr. 2. gr. fyrrnefndra laga. Ísbúð Vesturbæjar fylgir öllum viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma. Launaákvarðanir skulu vera gegnsæjar, málefnalegar og vel rökstuddar.
Til að framfylgja jafnlaunastefnunni skuldbindur Ísbúð Vesturbæjar sig til að skjalfesta, innleiða, viðhalda og bæta stöðugt stjórnun jafnlaunakerfisins í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST85:2012 og ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar. Ísbúð Vesturbæjar hefur innleitt verklag og skilgreint viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir starf sitt út frá verðmæti þess óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.
Umsjónarmaður jafnlaunakerfisins ber ábyrgð á jafnlaunakerfinu og sér til þess að kerfið sé skjalfest, innleitt og stöðugt uppfært. Allir stjórnendur eru skuldbundnir til að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frábrigðum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu.
Framkvæmdastjóri 26.7.2024